inngangur.svg

Formáli forstjóra

Rekstur ÁTVR var hefðbundinn á árinu. Sala áfengis jókst um tæp 5% og sala tóbaks dróst saman um tæp 10%. Tóbaksgjald á neftóbak var hækkað verulega í upphafi ársins og salan á neftóbakinu minnkaði um 5,8% í kjölfarið.

Á árinu var lögð lokahönd á ritun sögu ÁTVR. Sagan fjallar um fyrstu 95 ár verslunarinnar og stefnt er að því að hún komi út á fyrri hluta næsta árs. Saga ÁTVR er samofin sögu íslensku þjóðarinnar og oft hefur samband þjóðarinnar við áfengið verið stormasamt. Áfengi er engin venjuleg vara og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er engin venjuleg verslun. Verslunin var sett á laggirnar árið 1922 þegar bann við sölu áfengis á Íslandi var fellt úr gildi og hefur hún verið starfandi allar götur síðan. Vörurnar sem ÁTVR hefur á boðstólum eru þannig úr garði gerðar að best er fyrir samfélagið að sem minnst seljist og að neyslan sé í hófi. Varan er einnig vandmeðfarin, mörgum veitir hún gleði og ánægju, en öðrum reynist hún varhugaverð. Kostnaður samfélagsins af misnotkun vörunnar er hár og afleiðingarnar slæmar, ekki bara fyrir neytandann sjálfan heldur einnig fjölskylduna, vinnuveitandann og samfélagið allt. Öll starfsemi ÁTVR tekur mið af þessu sérstaka eðli vörunnar. Viðskiptavinir ÁTVR þurfa að sætta sig við sölufyrirkomulag sem eðli málsins samkvæmt takmarkar aðgengi að áfenginu. Einmitt þess vegna er mikilvægt að verslunin þjóni viðskiptavinum sínum eins og best verður á kosið. ÁTVR þarf því að feta vandrataðan veg milli samfélagslegrar ábyrgðar og þjónustu við viðskiptavini. Síðustu skoðanakannanir sýna að um 70% þjóðarinnar styður við núverandi sölufyrirkomulag. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að meirihluti þjóðarinnar skuli vera hlynntur rekstri á gamalli ríkisstofnun sem byggir á einkaleyfi til áfengissölu.

Ákvörðunin um ritun sögu ÁTVR var tekin í tíð fyrrverandi forstjóra en ÁTVR er meðal elstu og merkustu ríkisfyrirtækja landsins. Verslunin hefur alltaf starfað innan þröngs ramma og hefur þurft  að laga sig að breyttum tímum. Mikil umskipti hafa orðið í rekstri verslunarinnar frá því að hún var stofnuð og með því að varpa sögulegu ljósi á breytingarnar má sjá hvernig þær tengjast breytingum á þjóðfélaginu. Þannig er saga ÁTVR framlag til sögu lands og þjóðar.

Í gegn um tíðina hafa grunnstoðir íslenskrar áfengisstefnu falist í að starfrækja einkasölu ríkisins á áfengi, háum áfengissköttum, áherslu á forvarnir og banni við áfengisauglýsingum og markaðsstarfsemi tengdri áfengi. Einnig er lögð mikil áhersla á lögaldur til áfengiskaupa, upplýsingagjöf til almennings og öflug meðferðarúrræði. Oft vakna spurningar um eðli starfseminnar og hvort hún sé í raun og veru nauðsynleg í nútíma þjóðfélagi. Eðlilegt er að velta vöngum yfir því. Eftir langan starfstíma hjá ÁTVR og í ljósi þeirrar þekkingar sem ég hef öðlast í starfinu hef ég sannfærst um að markviss stýring áfengissölu dragi úr neyslu áfengis og þar með skaðanum sem misnotkun veldur einstaklingum og samfélaginu. Öflugasta og besta verkfærið sem stjórnvöld hafa til þess er ríkisrekin áfengiseinkasala. Þetta staðfestir fjöldi rannsókna sem gerðar hafa verið á sölumálum áfengis. Ríkisrekin áfengiseinkasala afnemur samkeppni í smásölu áfengis og þess vegna er áfengissalan minni. Einnig fjarlægir einkasalan hagnaðarkröfu einkarekstrar sem eðli málsins samkvæmt leitast við að selja sem mest til þess að hámarka hagnað eigendanna. Samfélagið allt ber kostnaðinn af misnotkun áfengisins og því er eðlilegt að hagnaðurinn af sölu þess lendi hjá ríkinu en ekki einkaaðilum. Hjá ÁTVR er hvorki stunduð söluhvetjandi starfsemi né reynt að ýta vörum að viðskiptavinum í því skyni að fá þá til þess að kaupa meira. Minna áfengi er selt í löndum þar sem ríkið sér um reksturinn. Það staðfestir fjöldi rannsókna og þær sýna einnig að sterk tengsl eru milli magns áfengis sem neytt er og skaðans sem neyslan veldur. Því meiri neysla því meiri skaði. Minni neysla skilar sér strax í bættu heilsufari og vellíðan þjóðarinnar ásamt lægri kostnaði skattgreiðenda vegna misnotkunar áfengis. Íslendingar sem á sínum tíma voru í verulegum vandræðum með að höndla áfengisneyslu hafa náð miklum árangri með aðhaldssamri áfengisstefnu. Eftir því er tekið í samfélagi þjóðanna.

Lögð er áhersla á að vöruþekking starfsfólksins sé mikil og að viðskiptavinir fái notið úrvals þjónustu.

ÁTVR hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Áður var verslunin gamaldags og íhaldssöm ríkisstofnun með fáa sölustaði, lítið vöruúrval, afgreiðslu yfir borð og starfsfólk í einkennisklæðum sem tóku mið af fatnaði lögreglu og tollvarða. Í dag er ÁTVR margverðlaunað þjónustufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og góða þjónustu. Allar verslanir ÁTVR eru sjálfsafgreiðsluverslanir, vöruúrvalið er fjölbreytt, verslunum hefur fjölgað og afgreiðslutíminn lengst. Lögð er áhersla á að vöruþekking starfsfólksins sé mikil og að viðskiptavinir fái notið úrvals þjónustu. Á síðustu árum hefur ÁTVR fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir góðan rekstur. Má þar t.d. nefna Íslensku gæðaverðlaunin frá Gæðastjórnunarfélagi Íslands, Ríkisstofnun til fyrirmyndar, hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni og Kuðunginn fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum. Verslunin einbeitir sér einnig að því að bæta áfengismenningu á Íslandi með því að vekja áhuga viðskiptavina á vandaðri vöru, miðla ýmsu fræðsluefni um áfengi og jafnframt að fræða viðskiptavini um tengingu matar og vína.

Bókin um ÁTVR fjallar um fyrstu 90 árin í sögu verslunarinnar. Þegar þessi orð eru skrifuð er ÁTVR orðin 95 ára og ennþá í fullu fjöri. Höfundar sögunnar og starfsfólk ÁTVR, bæði núverandi og fyrrverandi, unnu þrekvirki við að safna heimildum sem margar hverjar voru að því komnar að falla í gleymsku. Fyrir það vil ég þakka og vona að landsmenn hafi bæði gagn og gaman af lestri sögunnar um ÁTVR.

Sjálfbærni

ÁTVR vinnur með systurfyrirtækjum sínum á Norðurlöndum við að innleiða sjálfbærni og samfélagsábyrgð í starfsemi og stefnumótun fyrirtækjanna. Búið er að gera umhverfis- og loftslagsáætlun til 2022 þar sem lögð verður áhersla á umbúðir, orku og  losun gróðurhúsalofttegunda, vatn og líffræðilegan fjölbreytileika. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í umhverfismálum eru fléttuð inn í verkefnið. Áframhaldandi vinna verður við loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar til að ná markmiðum sem sett voru fyrir 2030. Grænum skrefum í ríkisrekstri verður fylgt eftir sem og vistvænum innkaupum.

Áskoranir í rekstri

Enn og aftur er til umfjöllunar frumvarp um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum og þessu fylgir álag fyrir starfsfólk ÁTVR og óvissa um framtíðina. Ein helsta áskorunin framundan í rekstrinum verður því að viðhalda starfsánægju starfsfólksins.

Rekstur ÁTVR er háður vilja stjórnvalda. Sá vilji mótast meðal annars af viðhorfum í samfélaginu á hverjum tíma. Ef almenningur styður ekki við reksturinn er alveg ljóst að honum yrði fljótlega hætt. Viðskiptavinir ÁTVR eru ánægðir með þjónustuna og kannanir sýna að almenningur vill halda í núverandi fyrirkomulag. Því verður önnur helsta áskorun ÁTVR á næstu árum að upplýsa almenning, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila um mikilvægi þess að halda áfram með núverandi sölukerfi á áfengi. 

Þakkir til starfsfólks

Ég vil að lokum þakka starfsfólki samstarfið á árinu. Það er mikill heiður fyrir mig að fá að leiða þann  frábæra hóp sem vinnur hjá ÁTVR.

Ívar J. Arndal
forstjóri

Heildarstefna

Leiðarljós

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið

Áherslur

Ábyrgir starfshættir

  • Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis
  • Við förum vel með verðmæti og notum auðlindir af ábyrgð
  • Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn
  • Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru
  • Við viljum draga úr áfengisneyslu ungs fólks með því að tryggja að aldursmörk til áfengiskaupa séu virt

Ánægt starfsfólk

  • Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur, heilsueflandi og skemmtilegur þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð
  • Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt
  • Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til að auka þekkingu sína og hæfni
  • Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf


Ánægðir viðskiptavinir

  • Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans
  • Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og hlutleysi
  • Við leggjum áherslu á fræðslu til viðskiptavina án þess að hvetja til meiri neyslu

Ábyrgt vöruval

  • Við leitumst við að bjóða eingöngu vörur sem framleiddar eru samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum
  • Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum
  • Við viljum tryggja öryggi og gæði vara
  • Við viljum vernda ungt fólk með því að hindra framboð á óæskilegum vörum

Virðing fyrir umhverfinu

  • Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni
  • Við drögum úr úrgangi með markvissum hætti og bjóðum viðskiptavinum upp á vistvænar lausnir

Stefna

Að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar

Framkvæmda­ráð

ivar @594x726x2.jpg

Ívar J. Arndal

Forstjóri

sigrun @594x726x2.jpg

Sigrún Ósk Sigurðardóttir

Aðstoðarforstjóri

sveinn @594x726x2.jpg

Sveinn Víkingur Árnason

Framkvæmdastjóri

Skipulag og stjórnun

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö, vörudreifing og heildsala tóbaks og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðssvið, rekstrarsvið og vörusvið.

skipurit 2017.png

Forstjóri og framkvæmdastjórar mynda framkvæmdaráð sem fundar að jafnaði vikulega. Mánaðarlega fundar yfirstjórn með mannauðsstjóra, aðalbókara og aðstoðarframkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs til að fara yfir stöðu verkefna. Til að tryggja gott upplýsingaflæði um rekstur og stöðu verkefna eru reglulega haldnir fundir með stjórnendum, starfsfólki í höfuðstöðvum og dreifingarmiðstöð og verslunarstjórum stærri Vínbúða. Árlega eru haldnir fundir í hverjum landshluta fyrir sig með verslunarstjórum. Auk þess halda verslunarstjórar stærri Vínbúða reglulega fundi með sínu starfsfólki. 

Þverfaglegir verkefna- og umbótahópar eru hluti af skipulaginu. Hóparnir vinna að fyrirfram skilgreindum verkefnum og hafa ákveðinn skipunartíma. Á árinu störfuðu tíu verkefnahópar og einn umbótahópur með þátttöku 27 starfsmanna frá mismunandi starfsstöðvum. Tveir vinnuhópar fjölluðu um afmörkuð viðfangsefni, endurskoðun á innri vef og gerð starfsþróunaráætlunar. Í tengslum við vinnu þessara hópa voru haldnir rýnifundir með þátttöku tæplega 50 starfsmanna þar sem markmiðið var að fá fram hugmyndir og koma með tillögur til úrbóta.

Ársskýrsla í samræmi við GRI

Þessi ársskýrsla gildir fyrir almanaksárið 2017 og nær yfir alla starfsemi ÁTVR sem er eingöngu á Íslandi.

Global reporting 2017.png
Samfelags_FESTA.png
heimsmarkmið2017

Ársskýrslan nær yfir alla starfsemi ÁTVR sem er eingöngu á Íslandi og gildir fyrir almanaksárið 2017.  Ísland er skilgreint sem nærsamfélag og eru allir stjórnendur íslenskir og búsettir á landinu.

Ársskýrslan er eingöngu á rafrænu formi en hægt er að prenta út einstaka hluta hennar eða skýrsluna í heild.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI), G4, þar sem markmiðið er að skrá  og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Gerð er grein fyrir  42 mælikvörðum sem eru að fullu uppfylltir og 3 að hluta uppfylltir í 6 flokkum. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í GRI hluta skýrslunnar (hér)  en jafnframt er gerð grein fyrir mælikvörðum í texta þar sem það á við. 

Árið 2012 gerðist ÁTVR aðili að UN Global Compact og hefur ársskýrslum verið skilað sem árlegum framvinduskýrslum (e. Communication on Progress) til samtakanna. Á árinu 2017 urðu breytingar hjá UN Global Compact þannig að fyrirtækjum sem tengjast tóbaki á einhvern hátt er ekki lengur heimil aðild. ÁTVR framleiðir neftóbak og er lögum samkvæmt með einkaleyfi á heildsölu tóbaks hérlendis og af þeim sökum tók UN Global Compact þá ákvörðun að heimila ÁTVR ekki lengur aðild að samtökunum.  

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. ÁTVR hefur innleitt þau inn í ferla fyrirtækisins. Markmiðin eru þau víðtækustu sem ríki heims hafa komið sér saman um og stefnt er að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030. Í sérstökum hluta skýrslunnar má sjá einstaka áherslur og tengsl við starfsemi fyrirtækisins.

Hagsmuna­aðilar

Stefna ÁTVR er að vera í hópi fremstu þjónustufyrirtækja
landsins og þekkt fyrir samfélagslega ábyrgð.

Við mat á samfélagslegri ábyrgð hefur hagsmunaaðilum verið skipt í fimm flokka: Viðskiptavinir, mannauður, samfélagið, eigandinn og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem koma fram í heildarstefnunni.

Markmið og árangur

Sett eru mælanleg markmið fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega í skorkortum fyrir hverja einingu s.s. Vínbúðir, skrifstofu og dreifingarmiðstöð. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku vefsvæði, auk upplýsinga um sölu og mest seldu tegundirnar í hverjum mánuði. Á sambærilegu svæði eru einnig upplýsingar og samantektir sem ætlaðar eru stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og yfirsýn sem snúa að birgðastjórnun. Markmið og aðgerðir eru unnar eftir áætlun til þriggja ára í senn, nú er unnið með tímabilið 2017-2019. Út frá þeirri áætlun eru unnar ársáætlanir sem byggja á heildarstefnunni og lykilmarkmiðum.

SJÁLFBÆRNISTJÓRNUN

Markmið og mælikvarðar

Í  töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkað eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru 17 og í þeim felst framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar til ársins 2030. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna Amfori (áður BSCI). Amfori eru leiðandi samtök í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla.

Sjálfbærnitaflan inniheldur mikilvægustu efnisþætti í starfsemi ÁTVR sem hafa mest áhrif á sjálfbærni. Auk þess er greint frá öðrum efnisþáttum í skýrslunni. Reglulega eru efnisþættir endurskoðaðir í mikilvægisgreiningu og bættist hlutfall léttglers við en það fellur vel að vinnu við að gera aðfangakeðjuna sjálfbærari. Þjónustustig var fellt út. 

sjalfbærnistafla2.png

Viðskiptavinir hafa áhrif á vöruval

vidskiptavinir.svg

Ánægja viðskiptavina

Markmið Vínbúðarinnar er að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins. Við setjum viðskiptavininn í öndvegi og tökum mið af væntingum hans. Við viljum að vöruvalið sé áhugavert og byggi á fjölbreytileika og gæðum. Við veitum þjónustu sem byggir á lipurð, fagmennsku og jákvæðu viðmóti. Við gætum hlutleysis en leggjum áherslu á að fræða viðskiptavini án þess að hvetja til meiri neyslu.

Eitt fremsta þjónustufyrirtæki landsins

Ánægjuvogin er mikilvægur mælikvarði til að kanna hvort fyrirtækið nái því markmiði að vera eitt af fremstu þjónustufyrirtækjum landsins. Vínbúðin var með hæstu einkunn í flokki fyrirtækja á smásölumarkaði í Íslensku ánægjuvoginni og þriðju hæstu einkunn allra fyrirtækja, fékk 74,1 stig af 100 mögulegum. Alls voru birtar niðurstöður um 25 fyrirtæki í 8 atvinnugreinum en Samtök iðnaðarins og Stjórnvísi standa sameiginlega að könnuninni.

ánægjuvogin 2@468x468.png

Vínbúðin var með hæstu einkunn í flokki fyrirtækja á smásölumarkaði í Íslensku ánægjuvoginni og þriðju hæstu einkunn allra fyrirtækja.

Árlegar þjónustukannanir mæla ánægju viðskiptavina í hverri Vínbúð fyrir sig. Viðskiptavinir gefa einkunn um þjónustu, vöruval, viðmót og þekkingu starfsfólks. Til viðbótar er árlega gerð könnun þar sem spurt er um almenna þætti auk þjónustunnar s.s. vöruval, opnunartíma og staðsetningu Vínbúða svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöðurnar eru rýndar og nýttar til umbóta. Í heildina eru viðskiptavinir ánægðir með þjónustuna og þótt einkunnin hafi lækkað lítillega á milli ára er árangurinn engu að síður mjög góður. Almennt er meiri ánægja með þjónustu minni Vínbúða sem allar eru á landsbyggðinni.

Ánægja með þjónustu vínbúðanna
2017 2016 2015
Stærri Vínbúðir 4,33 4,39 4,29
Minni Vínbúðir 4,48 4,54 4,46

Mæling Maskínu á ánægju.
Kvarðinn er 1-5 þar sem 1 er lægst og 5 hæst.

Fjöldi viðskiptavina

Flokkað eftir stærstu dögum ársins ásamt samanburði við hefðbundinn föstudag

þúsund viðskiptavinir

Á árinu komu rúmlega 4,9 milljónir viðskiptavina í Vínbúðirnar. Flestir koma í lok vikunnar en að jafnaði koma um 28 þús. viðskiptavinir á hefðbundnum föstudegi. Á stærstu dögum ársins fengu þó tæplega 40 þús. viðskiptavinir þjónustu í Vínbúðunum. Í ár bar 24. og 31. desember upp á sunnudag en þá er lokað í Vínbúðunum lögum samkvæmt. Dagarnir þar á undan voru því að vonum mjög annasamir og var laugardagurinn 30. desember stærsti dagur ársins hvað varðar fjölda viðskiptavina.

milljónir króna
runnu í Pokasjóð
kaupa plastpoka
þúsund bréfpokar
gefnir viðskiptavinum
á ári

vinbudin.is

Stöðugt er unnið að endurbótum á vefnum vinbudin.is svo hann megi þjóna viðskiptavinum sem best. Vefurinn er vel sóttur og voru heimsóknir 1.254 þús. á árinu. 

Þeim fjölgar stöðugt sem heimsækja vefinn í gegnum síma og spjaldtölvur en slík tæki voru notuð í 64% heimsókna.

Netspjall er þjónustuleið sem viðskiptavinir hafa nýtt sér í auknum mæli. Yfir 3.000 viðskiptavinir nýttu sér spjallið á árinu. 90% þeirra sem hafa nýtt sér spjallið eru ánægðir með það og gefa því góða einkunn.  

Vöruupplýsingar voru endurhannaðar með það fyrir augum að gefa viðskiptavinum fyllri upplýsingar. Dregnir eru fram með litum ólíkir flokkar vína og bjóra. Bætt var við upplýsingum um með hverju vínið í viðkomandi flokki hentar og við hvaða hitastig best er að bera það fram. Til viðbótar eru upplýsingar um hvort viðkomandi tegund sé fáanleg í fleiri en einni gerð umbúða, s.s. flöskum, dósum og kössum.

Fjöldi heimsókna á vinbudin.is

vinbudin.is
þúsund heimsóknir

Fræðsla

Þemadagar eru kærkomið tækifæri til að fræða viðskiptavini enn frekar. Í maí og júní var rósavín og matur í aðalhlutverki. Þetta var í annað sinn sem rósavín er í fókus í upphafi sumars. Eins og áður var birtur fróðleikur og uppskriftir að réttum sem passa vel með rósavíni. Í júlí og ágúst var áhersla lögð á að kynna einkenni freyðivíns. Birtar voru ýmsar greinar en einnig ljúffengar uppskriftir að réttum sem henta sérlega vel með freyðivíni. Allar greinar og uppskriftir eru aðgengilegar á vinbudin.is. 

Rósavín doppa 468x468@x2.png
Freyðivín doppa 468x468@x2.png

Vínbúðir ársins

Mosfellsbar 1620x1020@2x.jpg

VÍNBÚÐ ÁRSINS Í FLOKKI STÆRRI VÍNBÚÐA 2018

Vínbúðin Mosfellsbæ

Faskrudðsfjordur 1620x1020@2x.jpg

VÍNBÚÐ ÁRSINS Í FLOKKI MINNI VÍNBÚÐA 2018

Vínbúðin Fáskrúðsfirði

Öllum Vínbúðum eru sett mælanleg markmið, meðal annars um afköst, þjónustustig, skilríkjaeftirlit, rýrnun og gæðaeftirlit. Mánaðarlega eru niðurstöður mælinga kynntar og hafa allar Vínbúðir aðgang að niðurstöðunni bæði fyrir sína búð og aðrar Vínbúðir. Vínbúðunum er skipt í flokka þ.e. í stærri og minni eftir fjölda tegunda í vöruvali. Í flokki stærri Vínbúða eru alls 17 Vínbúðir, en 34 í flokki minni Vínbúða.

Árlega er starfsfólki þeirra Vínbúða sem ná bestum árangri veitt viðurkenning. Að þessu sinni voru Vínbúðir ársins: Vínbúðin í Mosfellsbæ í flokki stærri Vínbúða og Vínbúðin á Fáskrúðsfirði í flokki minni Vínbúða. Auk þess fékk Vínbúðin í Skeifunni viðurkenningu fyrir frábæran árangur í skilríkjaeftirliti og Vínbúðin Heiðrún fyrir framúrskarandi árangur í mælingu á ánægju viðskiptavina.

Ábyrgt vöruval

Norrænt samstarf á sviði samfélagslegrar ábyrgðar

Samfélagið gerir í auknum mæli kröfur til fyrirtækja um að þau tryggi að vörur sem þau selja séu framleiddar með siðrænum hætti. Það sama gildir um viðskiptavini Vínbúðanna. Í lögum um ÁTVR (86/2011) er kveðið á um að fyrirtækið skuli leitast við að haga innkaupum í samræmi við alþjóðasáttmála. 

Allt frá árinu 2009 hafa norrænu áfengiseinkasölurnar, Alko í Finnlandi, Systembolaget í Svíþjóð, Vinmonopolet í Noregi, Rúsdrekkasøla Landsins í Færeyjum og ÁTVR verið í samstarfi sem lýtur að siðferðilegum grundvallarreglum í aðfangakeðjunni. Sameiginlegt markmið er að tryggja að söluvörur fyrirtækjanna séu framleiddar samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og siðareglum. Allar einkasölurnar hafa gerst meðlimir í alþjóðasamtökunum FTA (Foreign Trade Association) og BSCI (Business Social Compliance Initiative). Á árinu fengu samtökin nýtt nafn, Amfori, og fellur BSCI þar undir. Sameiginlegu norrænu siðareglurnar hafa verið kynntar áfengisbirgjum í hverju landi fyrir sig. Til viðbótar hafa helstu vínframleiðslulönd verið heimsótt og framleiðendum, samtökum framleiðenda, fulltrúum stjórnvalda og öðrum hagsmunaaðilum verið kynnt samstarfið og siðareglurnar. Lögð er áhersla á að reglunum sé ætlað að vera grunnur til að leiðrétta hegðun ef úrbóta er þörf en ekki útiloka vörur nema önnur úrræði hafi verið fullreynd. Árlega standa Alko, Systembolaget og Vinmonopolet fyrir fjölda úttekta á vegum alþjóðlegra úttektaraðila þar sem framleiðendur eru metnir á grundvelli siðareglnanna og gerð áætlun til úrbóta ef ástæða er til. Niðurstöðurnar eru birtar í gagnagrunni Amfori fyrir meðlimi samtakanna.  

Á árinu 2017 urðu breytingar hjá UN Global Compact þannig að fyrirtækjum sem tengjast tóbaki á einhvern hátt er ekki lengur heimil aðild. ÁTVR framleiðir neftóbak og er lögum samkvæmt með einkaleyfi á heildsölu tóbaks hérlendis. Af þeim sökum tók UN Global Compact þá ákvörðun að heimila ÁTVR ekki lengur aðild að samtökunum.

Vöruval

Vöruval Vínbúðanna byggir á reglugerð um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi (nr. 1106/2015). Vöruvalið ræðst að mestu af eftirspurn viðskiptavina. Í grunninn eru þrír meginsöluflokkar: kjarni, reynsla og sérflokkur. Auk þeirra eru smærri tímabundnir flokkar tengdir ákveðnum tímabilum s.s. þorra, sumri og jólum. Kjarni er megin söluflokkurinn og myndar grunn að vöruvali hverrar Vínbúðar. Vöruval í kjarna er endurmetið þrisvar sinnum á ári. Reynsluflokkur er ætlaður nýjum vörum. Ef reynsluvara nær tilteknum viðmiðum í sölu færist hún í kjarna og er um leið fáanleg í fleiri Vínbúðum. Nú eru fjórar Vínbúðir sem selja reynsluflokk, Heiðrún, Álfrún í Hafnarfirði, Vínbúðin í Kringlunni og Vínbúðin í Skútuvogi.

tegundir í vöruvali
nýjar vörur teknar í reynslusölu á árinu 2017
viðskiptavina ánægðir
með vöruvalið

Sérflokki er ætlað að mæta óskum viðskiptavina og styðja við stefnu fyrirtækisins um að bjóða vöruval sem byggir á fjölbreytni og gæðum og um leið að tryggja skilgreint lágmarks vöruval í hverjum Vínbúðarflokki. 

Vínbúðunum er skipt í flokka eftir vöruvali. Þær búðir sem hafa minnsta vöruvalið eru í flokki K1, K2 eru með meira úrval og svo koll af kolli. K1, K2 og K3 Vínbúðir eru allar á landsbyggðinni en K6 Vínbúðir eru á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ. K8 og K9 Vínbúðir eru stærstu Vínbúðirnar, allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar litið er á markaðshlutdeild Vínbúðanna í heildarsölunni þá hafa K1, K2 og K3 Vínbúðir um 21% markaðshlutdeild en ef litið er á fjöldann í hlutfalli við heildarfjölda Vínbúða þá er hlutfallið 67%. 

Hlutdeild vínbúðaflokka í heildarsölunni


Vínbúðir flokkaðar eftir stærð


Í þjónustukönnun voru viðskiptavinir spurðir um ánægju með vöruval í Vínbúðinni þar sem þeir versla. Niðurstaðan var að tæplega 70% viðskiptavina eru mjög eða frekar ánægðir með vöruvalið á meðan um 7% eru frekar eða mjög óánægðir, aðrir eru hlutlausir. Spurt er um ánægju eftir flokkum þ.e. bjór, sterkt áfengi og léttvín. Lítill munur er á milli flokka en viðskiptavinir á landsbyggðinni eru almennt aðeins óánægðari með vöruvalið, þótt munurinn sé ekki mikill. Niðurstöðurnar eru rýndar með það fyrir augum að koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina en um leið þarf að taka tillit til stærðar og staðsetningar Vínbúðanna og þeirra reglna sem í gildi eru.

Gæðaeftirlit vöru

Áður en vara er samþykkt í sölu er gengið úr skugga um að hún uppfylli öll formskilyrði laga og reglna þar með talið reglur um merkingu matvæla. Ef ekki er gerð athugasemd fara allar vörur í skynmat til að tryggja gæði vörunnar. Skynmatið er vottað og sér BSI á Íslandi ehf. um að taka út ferlið. Með vottun skuldbindur ÁTVR sig til að tryggja að til staðar sé stöðugt umbótaferli sem felur í sér að gripið er til aðgerða ef úrbóta er þörf.  

Haustið 2016 byrjaði ÁTVR að fylgjast reglulega með styrkleika alkóhóls í söluvörum Vínbúðanna. Í október 2017 var tekin í notkun vínskanni, sem er sérhæft mælitæki fyrir vín, þar sem má fylgjast  með alkóhóli, sykri, súlfíti, sýrum og fleiri þáttum sem gagnast við gæðaeftirlit og gefa kost á auknum upplýsingum til viðskiptavina, m.a. um magn sykurs í víni. 

Á árinu 2017 voru mældar rúmlega 2.100 tegundir. Flestar mælingar staðfesta réttar merkingar en í 22 tilvikum fundust frávik frá uppgefnu alkóhólmagni. Brugðist er við ef frávik eru veruleg.

Á árinu 2017 voru 675 nýjar vörur teknar í reynslusölu. 

Framúrskarandi þjónusta krefst þekkingar

mannaudur.svg

Mannauður - ánægt starfsfólk

Við viljum að vinnustaðurinn sé öruggur og heilsueflandi og að samskipti einkennist af gildunum lipurð, þekking og ábyrgð. Við viljum að starfsfólk njóti virðingar og gerum því kleift að sinna starfi sínu á sem bestan hátt. Við líðum ekki mismunun á vinnustaðnum og tryggjum að starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf.

Lipurd388x388@2x.png
Thekking388x388@2x.png
Abyrgd388x388@2x.png

Siðareglur hafa þann tilgang að bæta starfsanda og ímynd fyrirtækisins. Reglurnar skerpa einnig á ábyrgð starfsfólks varðandi meðferð upplýsinga og undirstrika mikilvægi þess að allir hagsmunaaðilar njóti sanngirni og jafnræðis.

Starfsánægja

Gallup framkvæmir árlega viðamikla vinnustaðagreiningu til að fá fram skoðanir og upplifun starfsfólks á fjölmörgum þáttum sem snúa að starfsánægju. Helgun starfsfólks er einn mikilvægasti mælikvarðinn en helgun er mæld með þrettán spurningum, svokölluðum kjarnaspurningum. Spurningarnar byggja á áralöngum rannsóknum Gallup og snúa að upplifun starfsfólks á vinnustaðnum. Auk spurningar um heildaránægju er m.a. kannað hvort starfsfólk fái stuðning og hvatningu, hvort það sé metið að verðleikum, geti sagt álit sitt og fái hrós og endurgjöf. Meðaltal kjarnaspurninganna fór úr 4,32 í 4,34 á milli ára og er það hæsta einkunn sem Vínbúðirnar hafa fengið á þeim tíu árum sem könnunin hefur verið framkvæmd. 

Helgun - niðurstaða kjarnaspurninga

KVARÐINN 1-5

Í könnun SFR um stofnun ársins náði ÁTVR 4. sæti af stórum stofnunum og þar með ein af Fyrirmyndarstofnunum ársins.

Niðurstöðurnar eru kynntar starfsfólki. Á kynningunum er farið yfir niðurstöðurnar og samanburð við aðrar starfsstöðvar og fyrirtækið í heild, auk samanburðar við önnur fyrirtæki í gagnabanka Gallup. Samhliða vinnustaðagreiningu er framkvæmt yfirmannamat og fá allir sem hafa fimm eða fleiri undirmenn mat og sérstaka kynningu. Til viðbótar gefst starfsfólki kostur á að meta gæði innri þjónustu megin- og stoðsviða.

ÁTVR er þátttakandi í könnun SFR um Stofnun ársins. ÁTVR var í fjórða sæti af stórum stofnunum og þar með ein af Fyrirmyndarstofnunum ársins. Heildareinkunnin hækkaði úr 4,27 í 4,32 sem er hæsta einkunn sem ÁTVR hefur fengið í könnuninni. Til samanburðar var meðaltal heildareinkunna stærri stofnana 3,87.

Heilsueflandi vinnustaður

Í samræmi við stefnu ÁTVR er starfsfólk hvatt með margvíslegum hætti til heilsueflingar. Í boði er líkamsræktarstyrkur og samgöngusamningur. Samningstímabil samgöngusamnings eru tvö, sumar og vetur. Þeir sem gera samgöngusamning skuldbinda sig til að ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti, að jafnaði þrisvar í viku eða oftar. Fleiri eru með samning yfir sumartímann, alls 141 starfsmaður, en 109 eru með vetrarsamning. Árlega er gerð könnun á meðal starfsfólks þar sem spurt er út í ýmsa þætti tengda samgöngusamningum og ferðamáta. Mikill meirihluti eða 84% af þeim sem tóku afstöðu er ánægðir með samninginn. Svipað hlutfall telur samninginn og hreyfingu í kjölfarið hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan.

Í mars var starfsfólki boðið upp á heilsufarsmælingu en þar eru mældir þættir eins og kólesteról, blóðsykur, blóðþrýstingur, fituprósenta og BMI-stuðull. Á minni starfsstöðvum er starfsfólki boðið upp á að leita til næstu heilsugæslustöðvar til að fá sambærilega mælingu.

hjol2018 @2x.png

Viðburðadagatal er gefið út tvisvar á ári. Þar er að finna tilkynningar um kennslu Vínskólans og fyrirlestra og uppákomur tengdar heilsueflandi vinnustað. Á árinu var hafist handa við að móta langtímastefnu tengda heilsu og vellíðan. Umbótahópur skilaði niðurstöðum og verða þær notaðar til að móta aðgerðir næstu missera. Fjölmargir fyrirlestrar og viðburðir voru á dagskrá ársins, þar sem bæði var hugað að líkamlegri og andlegri heilsu. Starfsfólk var hvatt til þátttöku í Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna, sem eru skemmtilegar keppnir sem hvetja fólk til hreyfingar. Í Lífshlaupinu var Vínbúðin í fyrsta sæti í sínum flokki hvað varðar fjölda daga og í öðru sæti hvað varðar fjölda mínútna, annað árið í röð. Alls voru 30 lið skráð til þátttöku með 183 starfsmönnum. Í Hjólað í vinnuna náði Vínbúðin öðru sæti í sínum stærðarflokki.

Kjarasamningar og jafnlaunaúttekt

Starfsfólk fær greidd laun í samræmi við kjarasamninga fyrir utan forstjóra, sem heyrir undir kjararáð.  Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins gerir kjarasamning við viðkomandi stéttarfélög, auk þess sem ÁTVR hefur gert stofnanasamning um nánari útfærslur kjarasamnings við annars vegar SFR og hins vegar einstök félög háskólamenntaðra starfsmanna. 

ÁTVR hefur tvisvar sinnum hlotið Gullmerki í jafnlaunaúttekt PwC. Áfram var unnið með innleiðingu á jafnlaunastaðli og standa vonir til að hægt verði að klára verkefnið fyrir mitt ár 2018. 


jafnlaunavottun doppa 468x468@2x.png

Upplýsingagjöf

Til að gera starfsfólki kleift að sinna starfi sínu af kostgæfni er mikil áhersla lögð á að veita sem bestar upplýsingar um allt sem snýr að rekstri. Á árinu var innleiddur nýr samskiptavefur, Workplace, sem kom í staðinn fyrir innri vef. Innleiðingin gekk vel og voru yfir 80% starfsmanna farnir að nota vefinn á fyrstu vikunum. Reglulegir starfsmannafundir eru haldnir á öllum stærri starfsstöðvum til að tryggja upplýsingaflæði. Fréttabréf starfsfólks, Flöskuskeytið, var gefið út fimm sinnum á árinu. Blaðið er sent heim til starfsfólks en það er m.a. gert til að gefa fjölskyldunni innsýn í starfsemina og félagslífið. Enda eru myndir úr félagslífinu og frá viðburðum fyrirtækisins líklega vinsælasta efnið þótt í blaðinu sé að finna fjölbreytt efni, bæði fréttir og fróðleik.

Slysaskráning og fjarvistir vegna veikinda

Vinnuslys voru sjö á árinu og stendur fjöldinn í stað á milli ára. Sex slys urðu á starfsstöð en einn starfsmaður lenti í reiðhjólaslysi á leið til vinnu. Langtímamarkmiðið er að sjálfsögðu slysalaus vinnustaður. 

Fjarvistir vegna veikinda og veikinda barna sem hlutfall af unnum vinnustundum voru 2,4% og hefur þeim fækkað á milli ára, voru 2,5% árið 2016. Í heildina eru fjarvistir kvenna 2,3% og karla 2,5%. 

Fjarvistir vegna veikinda hefur fækkað á milli ára.

fastradid hlutfall.png
Fastráðið
starfsfólk 242

í desember 2017

storfudu hlutfall.png
507 störfuðu

hjá ÁTVR í desember 2017

Starfsmannafjöldi og ársverk

Í árslok störfuðu samtals 242 fastráðnir starfsmenn, 126 konur og  116 karlar, hjá fyrirtækinu. Í desember voru starfsmenn alls 507, bæði fastráðnir og tímavinnufólk, þar af voru 307 konur og 200 karlar. Tímavinnufólk er starfsfólk sem vinnur á álagstímum, seinni hluta vikunnar, í sumarafleysingum og um jól. Af þeim sem voru í vinnu í desember voru 36% í fullu starfi, 12% í hlutastarfi og 52% í tímavinnu.

Starfsmannavelta hjá fyrirtækinu í heild var 29%. Mesta starfsmannaveltan er hjá starfsfólki í tímavinnu, eða 39%, en minnst hjá starfsfólki í hlutastarfi, 7%. Í viðauka í lið GA-LA1 má sjá sundurliðun starfsmannaveltu eftir ráðningarformi, aldri og kyni.

Heildarfjöldi starfsmanna sem fékk greidd laun á árinu var 738. Umreiknað í ársverk voru þau 334 í samanburði við 312 árið áður. Í heildina hefur ársverkum því fjölgað um 7% á milli ára. Ný Vínbúð var opnuð í Garðabæ seinni hluta ársins og var opnunartími á landsbyggðinni lengdur og sérstakur vetrartími aflagður sem hefur áhrif til aukningar.

fengu greidd laun
árið 2017
ársverk voru unnin
árið 2017

Námskeið og starfsþróun

Að veita framúrskarandi þjónustu krefst þekkingar. Mikil áhersla er lögð á að starfsfólk hugi að þekkingu sinni og er mest öll fræðsla innan vébanda Vínskóla Vínbúðanna. Alls starfa hjá fyrirtækinu 16 vínráðgjafar á mismunandi starfsstöðvum sem allir hafa lokið alþjóðlegu prófi (WSET). Í þjónustukönnun voru viðskiptavinir spurðir um afstöðu til þekkingar starfsfólks, hlutfall jákvæðra hefur lítillega lækkað á milli ára en niðurstaðan er engu að síður góð, 78% telja starfsfólk Vínbúðanna búa yfir mjög eða frekar mikilli þekkingu en eingöngu 3% telja þekkinguna mjög eða frekar litla.

Samanlagt voru námskeiðsstundir tæplega 5.700 sem samsvarar rúmum tveimur dögum á hvert stöðugildi. Ekki eru í þessum tölum tímar yfir fyrirlestra og þátttöku starfsfólks í símenntun hjá Stjórnvísi, Dokkunni, hjá upplýsingatæknifyrirtækjum og háskólasamfélaginu.

Samanlagt voru námskeiðsstundir tæplega 5.700 sem samsvarar rúmum tveimur dögum á hvert stöðugildi.

Við giskum ekki

samfelagid.svg

SAMFÉLAGIÐ – ÁBYRGIR STARFSHÆTTIR

Við viljum vera fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni.

innleiding-mobile

Fyrirkomulag einkasölu áfengis á Íslandi

Á undanförnum misserum hefur átt sér stað mikil umræða um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Ítrekað hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að afnema núverandi fyrirkomulag og leyfa sölu á áfengi í almennum verslunum s.s. matvöruverslunum. Málið hefur verið rætt á Alþingi en ekki komið til atkvæðagreiðslu. Í könnun sem Gallup framkvæmdi voru landsmenn spurðir um afstöðu til fyrirkomulags áfengissölu. Niðurstaðan er aukin ánægja með núverandi fyrirkomulag og eru 71% ánægðir, 16% hlutlausir og 13% óánægðir.

Vaxandi fylgi er við núverandi fyrirkomulag og eru 71% ánægðir, 16% hlutlausir og 13% óánægðir.

Skilríkjaeftirlit og skilaboð til ungra viðskiptavina

Skilríkjaeftirlit er einn af mikilvægustu þáttunum í samfélagslegri ábyrgð. Markmiðið er að tryggja að allir viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri. Starfsfólk er þjálfað til að spyrja alla viðskiptavini sem virðast 24 ára eða yngri og ekki síst þá sem gætu verið undir 20 ára. Til að efla starfsfólk í skilríkjaeftirliti eru framkvæmdar hulduheimsóknir sem felast í því að 20-24 ára viðskiptavinir fara í Vínbúðir til að versla og skila upplýsingum til rannsóknaraðila um hvort spurt hafi verið um skilríki. Hulduheimsóknir eru framkvæmdar í öllum stærri Vínbúðum þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, í Reykjanesbæ og á Akureyri. Að meðaltali eru þrjár heimsóknir í mánuði í hverja Vínbúð. Á árinu var árangurinn 85% en markmið ársins var eins og undanfarin ár – 88%.

Hulduheimsóknir


Til að leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð sem felst í aldurseftirliti viðskiptavina hafa í gegnum árin verið birtar auglýsingar til að vekja athygli á því hversu erfitt er að giska á aldur viðskiptavina. Á árinu var auglýsingaherferðin Röðin birt í fjölmiðlum. Herferðin er á léttu nótunum og til þess fallin að vekja athygli á því hversu erfitt er að giska á aldur. Markmiðið er að vekja umræðu um málefnið og hvetja viðskiptavini til að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að sýna skilríki að eigin frumkvæði.

Könnun á samfélagsábyrgð

Gallup framkvæmdi könnun á meðal almennings um afstöðu til samfélagsábyrgðar ÁTVR. 68% aðspurðra telja að ÁTVR sýni mikla eða nokkra samfélagslega ábyrgð en 11% telja að fyrirtækið sýni enga samfélagslega ábyrgð. Niðurstaðan er svipuð og í fyrri könnun sem framkvæmd var 2015, heldur fleiri telja þó að samfélagsábyrgðin sé meiri og þeim hefur fækkað sem telja að samfélagsábyrgðin sé engin. Helstu ástæður þess að fólk upplifir að fyrirtækið sýni samfélagslega ábyrgð eru forvarnir og fræðsla og að ungmennum sé ekki selt áfengi, einnig eru nefnd atriði eins og umhverfismál.

Styrkir

Árlega styrkir ÁTVR fjölmarga aðila sem sinna ýmsum mannúðar- og forvarnarmálum. Megináherslan er þó lögð á að styrkja þá sem starfa að rannsóknum og forvörnum á sviði áfengis og vímuefna.

Umhverfismál

ÁTVR er eitt af 104 fyrirtækjum sem taka þátt í samstarfsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. ÁTVR hefur þess vegna sett sérloftslagsmarkmið til ársins 2030.

Í meginatriðum eru markmiðin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, innleiða sjálfbærni í ferla fyrirtækisins, mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu fyrrnefndra þátta. Umhverfisstjórnun byggir m.a. á mælingum þar sem notast er við grænt skorkort og svokallaðan GRI staðal (Global Reporting Initiative) við skrásetningu margvíslegra aðgerða í þágu samfélagsins.

Græn skref

ÁTVR heldur grænt bókhald og er jafnframt þátttakandi í Grænum skrefum í ríkisrekstri.

Græn skref eru leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu frá Umhverfisstofnun þegar hverju skrefi er náð. Alls eru skrefin fimm. Í upphafi árs var sett markmið um að allar Vínbúðir væru búnar að innleiða öll fimm skrefin á árinu. Það tókst og hafa því Græn skref verið innleidd á allar starfsstöðvar.

graen skref

Endurvinnsla

Unnið var að fjölmörgum verkefnum á sviði umhverfismála og með samstilltu átaki tókst að halda 92% endurvinnsluhlutfalli. Pappi og plast eru fyrirferðarmiklir flokkar og stöðugt er unnið að því að minnka magn af blönduðum úrgangi sem ekki fer til endurvinnslu. Þar sem því verður við komið er viðskiptavinum gert kleift að nálgast pappakassa til að endurnýta.

viðskiptavina kaupa plastpoka
tonn af bylgjupappa endurunninn
skil á plasti til Endurvinnslunnar

Plastpokar og fjölnota pokar

Viðskiptavinum fjölgaði um 4% á árinu, voru alls 4,9 milljónir. ÁTVR hefur með markvissum hætti hvatt viðskiptavini til að draga úr notkun plastpoka með því að bjóða fjölbreytt úrval af fjölnota pokum á hagstæðu verði. Sala á fjölnota pokum jókst um tæplega 27% á árinu, alls voru seldir 41 þúsund pokar. ÁTVR hefur sett sér það markmið að verða plastpokalaus og er einn liður í því að hækka verð á plastpokum. Pokarnir hækkuðu í verði um 10 kr. 1. september og 10 krónur 1. janúar 2018. Hækkunin er greidd í Pokasjóð sem styrkir fjölmörg verkefni á sviði samfélagsmála. Sala plastpoka dróst saman um 6,5% á milli ára. Engu að síður keyptu um 32% viðskiptavina plastpoka, eða tæplega 1,6 milljónir poka. Í áratugi hefur ÁTVR gefið viðskiptavinum brúna flöskubréfpoka. Á árinu var gefin tæplega 1,1 milljón poka og minnkaði magn í umferð um 41% á milli ára. Í lok ársins var ákveðið að hætta dreifingu á bréfpokunum frá og með 1. janúar. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum en gera má ráð fyrir að í flestum tilfellum endi flöskupokarnir sem rusl eða séu settir í endurvinnslutunnu þegar heim er komið.

2017 2016 % breyting
Seldir lítrar 21.866.826 20.886.356 4,8%
Fjöldi viðskiptavina 4.919.365 4.730.677 4,0%
Seldir plastpokar 1.576.774 1.686.635 -6,5%
Bréfpokar gefnir viðskiptavinum 1.087.000 1.847.000 -41,1%
Margnota burðarpokar 41.359 32.625 26,8%
Seldir maíspokar 5.000 61.392 -91,9%
Hlutfall viðskiptavina sem kaupa plastpoka 32,1% 35,7% -10,1%
fjolnota pokar 2018_360x454x@2x.png

Bein losun
CO2-ígildi (GHL)
tonn
Endurvinnslu-
hlutfall
Kolefnisjöfnun
tonn

Hjólavottaður vinnustaður

Hjólavottun vinnustaða er til að innleiða bætta hjólreiðamenningu og þar með hvetja til þess að notaður sé umhverfisvænn ferðamáti. Vinnustaðir geta fengið viðurkenningu í þremur flokkum, þ.e. gull, silfur og brons, eftir því hve hjólreiðavænir þeir eru. Vínbúðin fékk gullvottun árið 2016 og var um leið fyrsti vinnustaðurinn á Íslandi til að fá slíka vottun. Samgöngusamningar og bætt aðstaða starfsfólks og viðskiptavina eru meðal aðgerða sem eru til þess fallnar að stuðla að bættri hjólreiðamenningu.

hjolavottun doppur 234x234@2.png

Matjurtagarður

Til að stuðla að sjálfbærni var haldið áfram með matjurtagarð á lóðinni á Stuðlahálsi. Garðurinn var stækkaður lítillega til að auka fjölbreytni í ræktun. Í garðinum voru ræktaðar ýmsar tegundir t.d. rabarbari, rifsber, kryddjurtir, kartöflur, grænkál og jarðarber. Uppskeran var nýtt í mötuneyti starfsfólks. Mikil ánægja er með uppskeruna og markmiðið er að halda áfram með ræktunina.

Aukið vöruval með sérpöntun

eigandinn.svg

Eigandinn

Við viljum að sátt ríki í samfélaginu um núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis. Við leitum stöðugt nýrra leiða til þess að bæta reksturinn

Rekstur

Stór hluti tekna er með einum eða öðrum hætti hluti af tekjum ríkissjóðs þ.e. í formi áfengis- og tóbaksgjalda, virðisaukaskatts og arðs. Í ár nam þessi upphæð um 25.122 m.kr. en var 23.348 m.kr. árið 2016. Alls nam arður ÁTVR til ríkissjóðs 1.750 m.kr. 

HLUTUR RÍKISSJÓÐS AF BRÚTTÓSÖLU ÁTVR

*Áfengisgjald reiknað út eftir seldu magni

1. janúar voru gerðar breytingar á áfengisgjöldum þannig að gjöld á alla flokka þ.e. bjór, léttvín og sterkt áfengi, hækkuðu um 4,7%. Á sama tíma var tóbaksgjald hækkað þannig að gjald á sígarettur (vindlinga) hækkaði um 4,7% en gjald á neftóbak hækkaði um 77,2% og á vindla og annað tóbak um 62,6%. 

Hagnaður og sölutölur

Hagnaður ÁTVR var 1.367 m.kr. í samanburði við 1.629 m.kr. árið 2016. Rekstrartekjur ársins voru 34.276 m.kr. Rekstrargjöld námu 32.937 m.kr. Þar af var vörunotkun 29.066 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.547 m.kr. eða 3,9% miðað við 5,6% á fyrra ári. Arðsemi eiginfjár á árinu var 30,7%.

Rekstrartekjur
milljónir kr.
Hagnaður
milljónir króna
Arður til ríkissjóðs
milljónir króna

Sala áfengis

Tekjur af sölu áfengis voru 24.942 m.kr. án vsk. og hækkuðu um 5,5% á milli ára. Alls voru seldir 21,9 milljónir lítra af áfengi. Sala ársins var 4,8% meiri í lítrum í samanburði við fyrra ár. Sala á sterku áfengi (>22% alk.) jókst um 6,3% en sala á léttvíni (<=22% alk.) jókst um 4,4% og á bjór um 4,8%. 

Sala tóbaks

Tekjur af sölu tóbaks drógust saman um tæplega 1% á milli áranna 2016 og 2017 og voru 9.252 m.kr. án vsk. Tóbakssala dróst saman í öllum flokkum, mest í reyktóbaki 29%, vindlum um 13%, neftóbaki um 5,8% og sígarettum (vindlingum) um 9,4%.

Neftóbak
samdráttur
Sala á sígarettum
samdráttur

Breyting á sölu áfengis eftir flokkum
2016-2017


Breyting á sölu tóbaks 2016-2017
 


Framkvæmdir

Í árslok 2017 rak ÁTVR 51 Vínbúð auk vefbúðar, þar af eru 14 á höfuðborgarsvæðinu. Opnuð var ein ný Vínbúð í Garðabæ. 

Vínbúðin á Flúðum var stækkuð og endurbætt. Vínbúðin í Vík opnaði í febrúar eftir gagngerar breytingar og stækkun. Vínbúðin á Höfn fékk stærra húsnæði og var endurbætt. Í nóvember opnaði ný og glæsileg Vínbúð í Garðabæ en ekki hefur verið Vínbúð í bæjarfélaginu frá því í janúar 2011.

Dreifing

Með markvissri vörustjórnun er leitað leiða til að koma vörum til Vínbúða með sem skilvirkustum hætti um leið og hugað er að því að lágmarka umhverfisáhrif flutninganna. ÁTVR dreifir vörum með eigin bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu, til Akraness, Borgarness, Reykjanesbæjar, Grindavíkur og á Suðurland allt til Hvolsvallar. Aðrir flutningar er boðnir út. 

Ný Vínbúð opnaði í Garðabæ og þrjár aðrar Vínbúðir voru endurnýjaðar á árinu.

Vínbúðir um
allt land
Vínbúðir á
höfuðborgarsvæðinu

Ábyrgt vöruval

birgjar.svg

Birgjar

Við gætum jafnræðis við val og dreifingu á vöru. Lögð er áhersla á að upplýsingagjöf til birgja sé sem best. Birgjar hafa aðgang að sérstökum þjónustuvef sem veitir þeim aðgang að upplýsingum sem þá varða.

Stefna og framkvæmd ÁTVR gagnvart birgjum

Leyfi til innflutnings á áfengi er skilyrði fyrir því að hægt sé að sækja um vörur í reynslusölu. Áður en viðskipti geta hafist þarf birgir að undirrita stofnsamning um vörukaup áfengis. Samningurinn er heildarsamningur og tekur til allra vörukaupa ÁTVR frá birgi og veitir jafnframt aðgang að þjónustuvef. Jafnframt kveður samningurinn á um réttarstöðu aðila á grundvelli reglugerðar um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi (Nr. 1106/2015).

Birgjavefur, fundir og viðhorfskannanir

Á birgjavef eru margvíslegar upplýsingar ætlaðar birgjum. Stöðugt er unnið að endurbótum á framsetningu og uppsetningu á vefnum. Seinni hluta ársins voru gerðar breytingar þannig að birgjar geta með einföldum hætti komið vörum sem ekki eru í vöruvali Vínbúðanna í sölu í vefbúð. Breytingunni er ætlað að auka þjónustu við viðskiptavini en jafnframt að auðvelda birgjum þegar viðskiptavinur vill sérpanta vöru. Á vefnum hafa birgjar yfirsýn yfir stöðu umsókna, geta nálgast söluskýrslur og framlegðarskrá en auk þess eru birtar almennar fréttir sem snúa að samskiptum birgja og ÁTVR.

Nú er einfalt að skrá vörur í vefbúð sem ekki eru í vöruvali og auðvelda viðskiptavinum þannig að sérpanta vörur

Að jafnaði eru árlega haldnir tveir fundir með birgjum. Markmiðið er að miðla upplýsingum um það sem hæst ber hverju sinni. Dagskrá fundanna er fjölbreytt þar sem farið er yfir ýmsa þætti í rekstri og framkvæmd reglna sem snúa að samskiptum ÁTVR og birgja. Einnig var haldinn vel sóttur fræðslufundur um framlegðarskrá. Á árinu var starfandi umbótahópur sem hafði það að markmiði að greina samskipti og þjónustu við birgja og leggja mat á hvar tækifæri séu til úrbóta. Hópurinn átti gott samstarf við nokkra birgja sem veittu viðtöl og gáfu þannig hópnum betri yfirsýn yfir stöðu samskipta og þjónustu.

nýjar vörur teknar í reynslusölu
Sala bjórs
innlendur bjór
birgja ánægðir
með ÁTVR

Gerð var ein viðhorfskönnun á meðal birgja. Tilgangurinn var að fá fram skoðanir þeirra á ýmsum þáttum s.s. þjónustu og framkvæmd vöruvalsreglna. Við úrvinnslu er birgjum skipt í tvo flokka eftir veltu. Stórir birgjar eru þeir sem hafa yfir 200 m.kr. viðskipti á ársgrundvelli við ÁTVR en minni þeir sem eru með viðskipti undir þeirri upphæð. Almennt eru stærri birgjar ánægðari en þeir minni. Niðurstöðurnar eru rýndar um leið og leitað er leiða til að gera betur í samskiptum og þjónustu.

Ánægja birgja með ÁTVR í heildina jókst á milli ára, var 3,95 en 3,83 árið áður. Í könnuninni í ár voru birgjar spurðir hversu vel eða illa þeir þekkja ákvæði um samfélagslega ábyrgð í stofnsamningi ÁTVR. Niðurstaðan var að 44% telja sig þekkja hana mjög eða frekar vel, eingöngu 11% telja sig þekkja hana frekar eða mjög illa. Ekki er mikill munur á stórum og litlum birgjum. Þær áskoranir sem ÁTVR stendur jafnan frammi fyrir í samskiptum við birgja er að tryggja hlutleysi við ákvarðanir og á það jafnt við um val, dreifingu og framstillingu vöru.

Fjöldi frávika í vörumóttöku

Flest frávik eru vegna ósöluhæfrar vöru, vöntunar eða umframmagns í afhendingu og vegna strikamerkja.

Önnur innkaup

vistvaen

Vistvæn innkaup (VINN) er samstarfsvettvangur opinberra aðila en markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænum innkaupum og þar með grænum ríkisrekstri. ÁTVR er þátttakandi og skilar inn tölum um grænt bókhald. Sett eru mælanleg markmið og fylgst með niðurstöðunni mánaðarlega. Markvisst er unnið að því að auka hlut vistvænna vara á öllum starfsstöðvum s.s. með innkaupum á lífrænt vottuðum vörum fyrir mötuneyti.


Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Stuðlaháls 2 vinbudin@vinbudin.is vinbudin.is